Haukur Heiðar

Áramótahugleiðing

6 posts in this topic

Blessaðir fjölmiðlarnir. Hvar værum við án þeirra? Kristján frá Djúpalæk sagði við mig  sumarið 1975 að fjölmiðlum hefði farið aftur síðustu hundrað árin. Áður fyrr hefðu menn lesið annál ársins fyrir síðastliðið ár, og haft góða yfirsýn um fréttir og viðburði. Nú væri því ekki að heilsa, heldur hefði fréttamagn aukist svo á hverjum degi að menn hefðu ekki neina yfirsýn lengur. 

Íslensku máli í fjölmiðlum heldur áfram að hraka. Furðulegustu villur og ambögur skjóta upp kollinum daglega, einkum í netmiðlum. Þetta væri afsakanlegt ef erlendir aðilar, sem væru að nema íslensku, héldu um pennann / styddu á lyklaborðið. Ég er nú ekki nema svona í meðallagi í stafsetningu, en blöskrar samt margt. Og þetta eru víst Íslendingar sem þarna eru að verki. Rangar fallbeygingar nafnorða, rangt samsettar tíðir sagnorða, vitlausar forsetningar, eða þá lélegt málfar, þýtt orðrétt upp úr ensku, og svo mætti lengi telja. Ég hefði haldið að sæmileg íslenskukunnátta væri skilyrði fyrir ráðningu í störf sem unnin eru á ritvellinum. 

Mér finnst leitt að sjá og heyra þegar landsbyggðinni er hallmælt. Það er gamalþekkt vandamál að fólk í höfuðborginni og nágrenni sjái ekki lengra en til Keflavíkur og Hveragerðis, eða upp á Akranes. Þetta gildir fyrst og fremst um þá sem eru innfæddir á svæðinu. Í óveðrinu um daginn sá ég einhvers staðar manneskju tjá sig um að þetta fólk úti á landi gæti kennt sjálfu sér um rafmagnsleysi og slit á fjarskiptum, fyrst það væri svo vitlaust að eiga heima úti á landi. Já, heimskt er heima alið barn. Heimskur er sá sem hefir óvíða farið og hefir því takmarkaða reynslu. Þetta þarf ekki endilega að vera neikvæð merking, aðeins verið að staðfesta að sá sem hefur víða farið og margt reynt hefur meiri dýpt en sá sem það hefur ekki gert.

Ef Íslendingar væru samstíga þjóð, en það hafa þeir reyndar aldrei verið, sæu þeir að við verðum að nýta allt landið. Til heilla fyrir alla þjóðina, efnahag hennar og líka menningu. Hvernig landið er nýtt er svo annað mál, og um það er hægt að deila. Náttúrufegurð er víða mikið, sérkennilegt landslag og saga þeirra sem þar hafa búið, örnefni og fleira þjóðlegt. Margt af þessu, mest af þessu er utan höfuðborgarinnar. Sem betur fer er margt varðveitt í prentuðum heimildum og mun því ekki glatast þótt staðir fari í eyði. Þó er lifandi saga alltaf sú mikilvægasta. Það er mitt sjónarmið að heillavænlegast sé að landið sé allt í byggð, en sú byggð verður þó að byggja á sjálfbærri þróun, svo notað sé tískuorð sem ekki var til í gamla daga.

Borgarmenning, bæjamenning og sveitamenning eru hugtök sem vert er að hugleiða.  Á árunum 1910 til 1960 og lengur  fluttu margir utan af landi til höfuðborgarinnar og nágrennis hennar. Þetta fólk var alltaf sveitafólk í hjarta sínu þótt það hefði flutt á mölina. Það horfði á borgina með augum sveitamannsins eða sveitakonunnar. Því verður ekki mótmælt að sveitafólk búi í nánum tengslum við náttúru landsins, einkum það fólk sem hefur afkomu af búskap af einhverju tagi. Þessi tengsl skapa ákveðin viðhorf og menningu sem eru ólík bæja- og borgarmenningu. Þessi viðhorf eru önnur og upprunalegri en þau sem skapast af sjóndeildarhring borgarbúans. 

Er íslensk landbúnaðarframleiðsla einskis virði? Hvað gerist t.d. í ófriði, ef siglingar leggjast af? Ætlar fólk þá að borða erlendan dósamat? Olíuforði innanlands er of lítill til að hægt verði að halda áfram veiðum með bátum og togurum nema í 2 til 3 vikur, ef stríð og hafnbönn skella á. Hvað með mjólkurframleiðsluna, kjötframleiðslu o.s.frv.? Við getum ekki án þessa verið. Það verður ekkert stríð, munu menn segja. Já, það sögðu menn líka 1913 og 1938. Ástandið er annað nú, munu menn segja. Já, það er annað nú, en maðurinn er samt sem áður jafn vígaglaður og hann hefur alltaf verið. 

Og iðnaðurinn hefur tekið á sig högg. Núna er engin sem framleiðir sement eða köfnunarefnisáburð á landinu, því spekingarnir við skrifborðin í Reykjavík hafa reiknað út að hagstæðara sé að kaupa þessa hluti frá Danmörku eða öðrum löndum sem ég kann ekki að nefna. Hvað með tækniþekkinguna sem fór með þessum fyrirtækjum? Hvað með að vera sjálfum sér nógur? Já, verði þeim að góðu þegar þeir vakna upp einn góðann veðurdag við aukið atvinnuleysi og framleiðslu sem hefur verið flutt úr landinu. Menn geta horft á reynslu Bandaríkjanna í þessum efnum. Flytjum allt til Kína, og þegar Kína er farið að valda kreppu og skuldasöfnun heima fyrir, nú þá er að fara í viðskiptastríð við þetta sama Kína og við sköpuðum sjálf með okkar eigin gróðahyggju og gróðahyggju markaðarins að leiðarljósi. 

Þjóð getur aldrei lifað af á því einu að stunda verslun og viðskipti. Framleiðslan er það sem skiptir máli. Horfið t.d. á Þýskaland nútímans. Þjóðverjar hafa alltaf vitað þetta, svo og Rússar, og  Bretar á sínum tíma, en tæplega Bretar nútímans, og Suður-Evrópa miklu síður. Sjáið t.d. efnahagsástandið í Ítalíu sem eitt sinn var stórveldi í tækni og framleiðslu. 

Um málefnin.com Hér er margt athyglisvert og nýtt í umræðunni. Gott mál að sjá margar hliðar á hlutunum. Ég sé þó ekki ástæðu til að leggja mikið eða lítið til þessa, því mér leiðist að sjá sum öfgasjónarmið og órökstudda sleggjudóma, byggða á reynsluleysi. Einkum hvað landsbyggðina varðar.

Já, alltaf gaman af rifrildinu á Alþingi. Þetta er eins og skemmtiþáttur í aðra röndina - og hefur alltaf verið. 

Óveðrið um daginn sýndi okkur mikilvægi varastöðva raforku, og að við höfum slegið slöku við uppfærslu raforkumannvirkja, einkum dreifikerfis. Það er auðvelt að gleyma því á góðviðrisdögum að Ísland sé eins og það er. Og þegar þú ert að frjósa í hel, matar- og vatnslaus með dauðann farsíma, þá er ég viss um að sælubros færist yfir andlitin, og fólk getur róað sig við að það hafi þó alla vega gert eitthvað gott í lífinu, sem sé að styðja við umhverfismálin.

 

 

3 people like this

Share this post


Link to post
Share on other sites

   Fróðlegur pistill og kemur víða við, eins og búast mátti við af höfundi pistilsins. Hart ár er hins  vegar framundan og ekki virðist sjást til lands í allri "innviðauppbyggingunni" sem áætluð er, svo sem í flugvallamálunum (sérstaklega að því er varðar lengingu austur/vesturbrautarinnar sem er varla annað en forgangsmál að framkvæma), vegaagerðinni vítt og breitt um landsbyggðina, hvað þá jarðgangnagerðir hér og þar - sem er þó forgangsmál jafnt og vegagerðir. - Öll þessi mál eru hins vegar háð fjármögnun og okkur er fjár vant. - Eina lausnin sem þó glittir í er að gera haldgóða fjármagnssamninga við Bandaríkjamenn um að leysa vanda okkar með "einum eða öðrum hætti" eins og einn af okkar fyrrv. forsetum orðaði það svo snilldarlega. - Bandaríkin hafa ávallt reynst okkur Íslendingum vel allt frá þeir komu til landsins 1944. - Staðreynd er, að fámennri  þjóð í Norðurhöfum er nauðsyn á að hafa aðra þjóð sem "bakhjarl" í efnahagslegu tilliti sem og varnarlegu. - Við sjáum svo hvað verða vill í þessum efnum. Það kemur eflaust í ljós á nýbyrjuðu ári.

1 person likes this

Share this post


Link to post
Share on other sites

Þakka þér Barði fyrir innleggið. Það er rétt mikil innviðauppbygging er framundan. En hvers vegna eru opinberar framkvæmdir eins dýrar og raun ber vitni? Er eðlilegt að hönnunarkostnaður sé 30 prósent af heildarkostnaði t.d. byggingar? Einhvern veginn finnst mér það loða við að þetta sé of hátt hlutfall oft á tíðum. Og sama sinnis eru erlendir verkfræðingar og arkitektar sem ég hefi rætt við. Ég hefi mínar skoðanir á orsökunum en vil ekki viðra þær að svo stöddu. Samanburður við kostnað annarra ríkja er þó sjálfsagt gagnlegur. Já Bandaríkin hafa reynst okkur vel um margt en þeir hafa í mörg horn að líta. Hnattstaða landsins okkar er líka hernaðarlega mikilvæg sem gæti virkað eins og gulrót. Og hefur gert það.

P.S. Vissir aðilar ganga á lagið þegar um opinberar framkvæmdir er að ræða. Hvað kostaði t.d. vínkjallarinn á Bessastöðum á sínum tíma, fyrir rúmum 20 árum?

1 person likes this

Share this post


Link to post
Share on other sites

Það hefur alltaf verið þannig að menn mjólki hið opinbera. En áður fyrr fjárfestu menn og greiddu skatta á Íslandi. 

Núna er það ekki svo því  menn setja féð í einkahlutafélag og færa gróðann úr landi í skattaskjól og fjárfesta þroskuðum mörkuðum og fá örugga ávöxtun.

Svo fer einkahlutafélagið í gjaldþrot og ríkið fær ekki sitt.

Share this post


Link to post
Share on other sites

       Furðulegt í meira lagi, hve fáir taka undir þennan fróðlega pistil sem hér birtist í upphafi. Pistill sem er þó afar fróðlegur, marktækur og tekur á vítt og breitt svo og fjölmiðlum sem endurspegla hvergi nærri þau vandamál sem að okkur Íslendingum steðja eða hvernig leysa skuli úr þeim "innviðamálum" sem svo oft eru rædd en engan enda ætla að taka, vegna úrræðaleysis stjórnvalda - eða þó hinna einstöku ráðherra sem standa að málaflokkum  hvers fyrir sig. - Þar eru sannarlega úrræðin í vegakerfinu svo og endurbætur Reykjavíkurflugvallar sem tróna efst á þessum listum. - Sennilega líður þetta ár á enda án þess að nokkur framvinda sést um úrlausn. - Þetta miðar allt að því (þótt sumir fordæmi þá lausn) að okkur verður ekkert ágengt fyrr en  Íslendingar semja sérstaklega við Bandaríkin um fjárhagsaðstoð í gegnum einhverskonar Fríverslunarsamning á móti þeim óskum Bandaríkjanna að fá aðstöðu hér fyrir varnarlið NATO - og sem er sannarlega gagnkvæmt hvat Ísland varðar. - Hér er sannarlega rúm og tækifæri hér á Málefnunum að ræða þessa hluti í þaula.

Share this post


Link to post
Share on other sites

         Þessi pistill eftir Hauk Heiðar á heima á stærri fjölmiðlum en á Málefnunum. Hann ætti að senda pistil sin á Morgunblaðið eða Fréttablaðið svo allur almenningur geti lesið, sér til fróðleiks og ánægju. - Ég skora á Hauk að senda pistil sinn á annanhvorn prentmiðilinn.

1 person likes this

Share this post


Link to post
Share on other sites

Create an account or sign in to comment

You need to be a member in order to leave a comment

Create an account

Sign up for a new account in our community. It's easy!


Register a new account

Sign in

Already have an account? Sign in here.


Sign In Now

  • Recently Browsing   0 members

    No registered users viewing this page.